Kjarasamningur SGS og SA 2024-2028
Þann 7. mars undirritaði Starfsgreinasamband Íslands nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Um er að ræða langtímasamning til fjögurra ára sem gildir frá 1. febrúar 2024 til 1. febrúar 2028.
Launahækkanir
Á samningstímanum munu launataxtar hækka um samtals 95 til 107 þúsund krónur sem jafngildir tæplega 24% hækkun yfir 4 ár. Hlutfallsbil milli launaflokka og starfsaldursþrepa í launatöflu SGS halda sér út samningstímann.
Laun þeirra sem eru fyrir ofan töflur hækka á samningstíma um 14,5% en þó aldrei um minna en 95.000 kr.
Hækkanir dreifast svona yfir samningstímann:
1. febrúar 2024: Lágmark 23.750 kr. eða 3,25%
1. janúar 2025: Lágmark 23.750 kr. eða 3,50%
1. janúar 2026: Lágmark 23.750 kr. eða 3,50%
1. janúar 2027: Lágmark 23.750 kr. eða 3,50%
Samtals: Lágmark 95.000 kr. eða 14,5%
Orlofs- og desemberuppbót
Orlofs- og desemberuppbætur uppfærast á samningstímanum. Orlofsuppbót hækkar um 2.000 kr. á ári og verður 64.000 kr. árið 2027. Desemberuppbót hækkar um 4.000 kr. á ári og verður orðin 118.000 kr. í lok samningstímans.
Ár | Orlofsuppbót | Desemberuppbót |
2024 | 58.000 kr. | 106.000 kr. |
2025 | 60.000 kr | 110.000 kr. |
2026 | 62.000 kr. | 114.000 kr. |
2027 | 64.000 kr. | 118.000 kr. |
Aukin orlofsréttindi
Í samningunum eru orlofsréttindi félagsfólks aukin. Félagsmenn SGS sem hafa unnið í sex mánuði eða lengur í sama fyrirtæki og eru eldri en 22 ára fá nú 25 daga lágmarksorlof, en orlof þeirra var áður 24 dagar.
Þá lengist orlofsréttur þeirra sem unnið hafa í fimm ár hjá fyrirtæki. Var hann áður 25 dagar en lengist í tveimur þrepum upp í 28 daga.
Leiðrétting á kjörum ræstingafólks
Í samningnum náðist mikilsverður árangur í því að bæta kjör ræstingafólks. Um var að ræða sameiginlegt sameiginlegt baráttumál SGS og Eflingar sem Samiðn studdi jafnframt dyggilega.
Til viðbótar við aðrar umsamdar hækkanir samningsins mun ræstingafólk sem starfar undir 22. kafla aðalkjarasamningsins hækka úr launaflokki 6 í launaflokk 8. Það þýðir að í lok samningstíma munu grunnlaun ræstingafólks hafa hækkað um allt að 6 þúsund krónur umfram aðrar launahækkanir, og skilar sú viðbótarhækkun sér inn í vakta- og yfirvinnuálög.
Þá kemur til viðbótar sérstakur ræstingaauki að upphæð 19.500 kr. á mánuði miðað við fulla vinnu. Ræstingaaukinn bætist við laun frá og með ágústlaunum 2024, og verður sér lína á launaseðli sem hækkar ekki vakta- eða yfirvinnuálög.
Mánaðarlaun ræstingastarfsmanns með 5 ára starfsreynslu í fullu starfi munu í september 2024 hafa hækkað um að minnsta kosti 49.866 krónur.
Einnig kemur inn ný grein sem skýrir skilgreininguna á tímamældri ákvæðisvinnu, en brögð hafa verið að því að launafólk fái ekki greitt 20% álag sem fylgja á slíkri vinnu. Nýja greinin styrkir stöðu ræstingafólks til að sækja rétt sinn gagnvart fyrirtæki.
Þá voru heimildir til vinnustaðaeftirlits útvíkkaðar til ræstingafyrirtækja.
Breytingar á greiðasölusamningi
Gerðar eru breytingar á samningi SGS við SA um störf á hótelum og veitingahúsum.
Starfsfólk hótela og veitingahúsa hækka um 1 launaflokk. Almennt starfsfólk úr lfl. 5 í lfl. 6. Sérþjálfaðir úr lfl. 6 í lfl. 7
Á móti kemur að heimilt verður að greiða vaktaálag þar til fullum vinnuskilum er náð. Yfirvinnukaup greiðist eftir full vinnuskil.
Í 5. kafla um fyrirtækjaþátt eru heimildir auknar til að semja um upptöku jafnaðarálags að gefnu samþykki stéttarfélags og starfsfólks.
Stéttarfélög hafa fulla aðkomu að viðræðum um slíkt og aðgang að öllum gögnum sem liggja til grundvallar útreikningum á jafnaðarálagi.
Réttindi í vinnu
Í samningum náðist árangur í að styrkja mikilvæg réttindamál félagsfólks á vinnustað, sem má finna í nýjum og lagfærðum kjarasamningsákvæðum.
Þar má nefna nýjan undirkafla 7.6 sem styrkir rétt starfsmanns sem leggur fram athugasemd við atvinnurekanda vegna aðbúnaðar eða öryggis á vinnustað. Samkvæmt ákvæðum kaflans er atvinnurekanda óheimilt að láta starfsmann gjalda þess í starfi að hafa komið með slíka ábendingu. Jafnframt ber atvinnurekanda að bregðast við og upplýsa starfsmann um framgang málsins.
Þá eru ákvæði varðandi störf og réttindi trúnaðarmanna styrkt verulega. Heimilt verður að kjósa þrjá trúnaðarmenn á vinnustöðum með meira en 120 félagsmenn, en frá upphafi lagasetningar um trúnaðarmenn hefur aðeins verið hægt að kjósa tvo trúnaðarmenn að hámarki á hverjum vinnustað, óháð stærð. Einnig mælir nýtt ákvæði fyrir um að trúnaðarmaður og atvinnurekandi skuli gera samkomulag um þann tíma sem trúnaðarmaður hafi til að sinna störfum sínum. Þá er námskeiðsseturéttur trúnaðarmanna aukinn úr 5 dögum í 10 á fyrsta ári skipunartíma og verða trúnaðarmenn sem vinna vaktavinnu tryggðir gegn launatapi sökum námskeiðssetu.
Forsendur um verðlag og hagþróun
Samningurinn er byggður á þeirri forsendu að verðbólga, og þar með vextir, náist hratt niður. Þetta er ein mikilvægasta kjarabót samninganna til viðbótar við launahækkanir og aukningu á skattfrjálsum bótum hins opinbera.
Hafi verðbólga ekki lækkað niður fyrir tiltekið mark á umsömdum dagsetningum, og ekki náðst samkomulag við SA um hvernig það skuli bætt, verður heimilt að segja samningnum upp á tveimur tímapunktum á samningstímanum. Einnig verður heimilt að segja samningi upp hafi stjórnvöld ekki staðið við yfirlýsingar sínar varðandi endurreisn bótakerfa og önnur atriði.
Einnig er forsenduákvæði sem tryggir að taxtalaun dragist aldrei aftur úr launavísitölu vegna launaskriðs hærra launaðra hópa. Þá eru forsenduákvæði sem tryggja hlutdeild launafólks í aukinni framleiðni hagkerfisins, fari hún yfir visst mark.
Tímaröðun endurskoðunarákvæða er svona:
2025: Kauptaxtar skulu hækka sjálfkrafa 1. apríl til samræmis við launavísitölu, hafi hún hækkað umfram kauptaxta SGS.
Hafi 12 mánaða verðbólga í ágúst ekki lækkað niður fyrir 4,95%, eða hafi stjórnvöld ekki staðið við fyrirheit skv. yfirlýsingu, verður heimilt að segja samningi upp þannig að hann falli úr gildi 31. október.
2026: Sömu fyrirvarar varðandi kauptaxta og 2025.
Laun hækka um vissa prósentu 1. apríl hafi framleiðni í hagkerfinu aukist umfram 2% og ekki verið efnahagssamdráttur á undangengnu ári.
Hafi 12 mánaða verðbólga í ágúst ekki lækkað niður fyrir 4,7% verður heimilt að segja samningi upp þannig að hann falli úr gildi 31. október.
2027: Sömu fyrirvarar varðandi kauptaxta og framleiðni og árið 2026.
Lækkun verðbólgu með samstilltu átaki verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, ríkis, sveitarfélaga og annarra - vextir lækki í humátt á eftir.
Samið um hófstilltar launahækkanir
- Fyrirtæki lækki hagnaðarkröfu sína og dragi úr álagningu
- Hófleg hækkun opinberra gjalda ríkis og sveitarfélaga
- Vextir húsnæðislána lækki samhliða lækkun verðlags
- Öll þurfa taka þátt og skila sínu
Endurreisn tilfærslukerfa vinnandi fólks
- Barnabætur, vaxtabætur og leigubætur
- Aðrar umbætur í velferðarmálum
Ströng forsenduákvæði verja launafólk, komi til þess að markmið samnings náist ekki.
Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga leggja sameiginlega lagt fram aðgerðir til að greiða fyrir samningnum til næstu fjögurra ára. Aðgerðirnar styðja við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.
Heildarumfang aðgerðanna er allt að 80 milljarðar króna á samningstímanum. Í þeim er lögð sérstök áhersla á að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða því að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.
Helstu atriðin í framlagi hins opinbera:
- Skólamáltíðir í grunnskólum verða gerðar gjaldfrjálsar frá upphafi næsta skólaárs. Fyrir einstakling með tvö grunnskólabörn er þetta ígildi um 40 þúsund króna launahækkunar. Einhver sveitarfélög hafa ekki staðfest þátttöku sína, en til dæmis Reykjavíkurborg mun gera máltíðirnar gjaldfrjálsar.
- Húsnæðisbætur til leigjenda munu hækka um 25% auk sérstakrar viðbótarhækkunar fyrir fjölskyldur með 3 eða fleiri börn. Þessi breyting kemur til áhrifa 1. júní 2024.
- Barnabætur munu hækka um 6% og dregið verður úr skerðingum úr 5% í 4%.
- Vaxtastuðningur í formi eingreiðslu verður greiddur á árinu 2024. Upphæð vaxtastuðningsins verður allt að 150 þúsund krónur fyrir barnlausan einstakling, 200 þúsund fyrir einstætt foreldra og 250 þúsund fyrir hjón. Upphæðina má nýta til lækkunar á höfuðstóli láns eða mánaðarlegra afborgana yfir visst tímabil, eftir vali hvers og eins.
- Gjaldskrár sveitarfélaga og ríkis munu, með nokkrum undantekningum, lækka í tilvikum þar sem liðir hækkuðu umfram 3,5% um síðustu áramót, og ríki og sveitarfélög munu halda öllum hækkunum innan við 2,5% á árinu 2025.
- Reglun leigumarkaðar verður komið á með nýju lagafrumvarpi sem áformað er að samþykkja á vorþingi 2024. Það felur í sér hömlun á hækkunum leiguverðs og styrkta stöðu leigjenda í fleiri atriðum.
- Nánari útlistun á aðgerðum stjórnvalda vegna kjarasamningsins má nálgast hér.
Eftirtalin 18 félög eiga aðild að samningnum:
- AFL Starfsgreinafélag
- Aldan stéttarfélag
- Báran stéttarfélag
- Drífandi stéttarfélag
- Eining-Iðja
- Framsýn stéttarfélag
- Stéttarfélagið Samstaða
- Stéttarfélag Vesturlands
- Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur
- Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis
- Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis
- Verkalýðsfélag Akraness
- Verkalýðsfélag Grindavíkur
- Verkalýðsfélag Snæfellinga
- Verkalýðsfélag Suðurlands
- Verkalýðsfélag Vestfirðinga
- Verkalýðsfélag Þórshafnar
- Verkalýðsfélagið Hlíf
Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn stóð frá 13. til 20. mars.
Samningurinn samþykktur með 82,72% atkvæða. Nei sögðu 12,85% og 4,43% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru samtals 23.677 félagsmenn hjá öllum 18 aðildarfélögum SGS. Atkvæði greiddu 4.156 manns eða 17.55%.
Niðurstöður atkvæðagreiðslu (PDF)
SGS has signed a long term collective agreement with the Confederation of Icelandic Enterprise (SA). The collective agreement takes effect from February 1st 2024 and expires at the end of January 2028.