21. mars 2025
Lágmarkskauptaxtar hækka um 0,58% frá 1. apríl 2025
Sérstök launa- og forsendunefnd kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem skipuð er fulltrúum frá ASÍ og SA, kom saman til fyrsta fundar föstudaginn 7. mars sl. Nefndin hefur úrskurðað að kauptaxtaauki virkist frá og með 1. apríl næstkomandi og munu lágmarkskauptaxtar kjarasamninga hækka um 0,58% frá og með 1. apríl 2025.
17. mars 2025
Kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna ólögmæts samráðs á veitingamarkaði
Starfsgreinasamband Íslands, Efling stéttarfélag og Alþýðusamband Íslands hafa sent Samkeppniseftirlitinu formlega kvörtun vegna ólögmæts verðsamráðs fyrirtækja á veitingamarkaði og ólögmæts verðsamráðs innan Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Kvörtunin beinist annars vegar að SVEIT en hins vegar að aðildarfélögum þess, fyrirtækjum á veitingamarkaði sem stóðu að stofnun gervistéttarfélagsins Virðingar og gerðu samning við SVEIT um kaup og kjör.
7. mars 2025
Umsvif hins opinbera í útboðum í ræstingum kortlögð
Í gær sendi ASÍ fyrir hönd SGS og Eflingar bréf til allra sveitarfélaga landsins þar sem óskað er eftir upplýsingum um þau ræstingarverkefni sem sveitarfélögin hafa útvistað til einkafyrirtækja á síðustu árum. Tilgangur upplýsingabeiðninnar er að greina betur umfang hins opinbera í útboðum á ræstingum og þrifum.