Hvað gera félögin fyrir þig?
Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins sinna margvíslegri þjónustu fyrir félagsmenn sína. Hjá þeim getur þú m.a. fengið upplýsingar og aðstoð vegna launaútreikninga og kjaramála, sótt um námsstyrki, leigt orlofshús, fengið greiðslur vegna langvarandi veikinda og fengið aðstoð lögmanna vegna ágreinings við launagreiðendur.
Hér að neðan verður fjallað stuttlega um meginverkefni og þjónustu aðildarfélaga SGS. Athugaðu að þjónusta og réttindi geta verið mismunandi eftir félögum.
Eitt af meginhlutverkum stéttarfélaganna er að gera kjarasamninga sem ráða launum og starfskjörum þínum. Launafólk greiðir gjald til stéttarfélagsins sem launagreiðandi heldur eftir af launum. Gjaldið er í raun greiðsla til stéttarfélagsins fyrir að sinna kjarasamningsgerðinni auk annarrar þjónustu sem félagsgjaldið stendur undir. Þannig sinnir félagið upplýsingagjöf til félagsmanna, veitir ráðgjöf ef upp kemur ágreiningur á vinnustað, aðstoðar við útreikning á launum og veitir aðstoð við túlkun kjara- og ráðningarsamninga. Þá er lögfræðiþjónusta í boði fyrir félagsmenn þurfi þeir á slíkri þjónustu að halda.
Félagsmenn geta sótt um að fá leigð sumarhús og orlofsíbúðir en nokkuð mismunandi er hvaða aðferðum stéttarfélögin beita við úthlutun. Reynt er að halda leiguverði í lágmarki.
Vilji félagsmenn auka menntun sína er hægt að sækja um náms- og námskeiðsstyrki úr fræðslusjóðum stéttarfélaganna. Hafðu samband við stéttarfélagið þitt til að afla upplýsinga um þá námsstyrki sem þú átt rétt á. Þá kunna að vera í boði styrkir vegna ýmissa tómstunda.
Ef þú hefur lent í alvarlegum veikindum eða slysi og hefur ekki sömu starfsgetu og áður aðstoðar VIRK Starfsendurhæfingarsjóður eða ráðgjafar stéttarfélagsins þig við að efla færni þína og vinnugetu á ný.
Sjúkrasjóðir stéttarfélaganna veita félagsmönnum sínum margvíslegan stuðning. Þar á meðal má nefna sjúkradagpeninga vegna veikinda eða slyss eftir að greiðslur hætta frá atvinnurekanda, dagpeninga vegna alvarlega veikra barna eða maka, dánarbætur og síðast en ekki síst styrki vegna sjúkraþjálfunar, heilsuræktar, lyfjakostnaðar, gleraugnakaupa, dvalar á heilbrigðisstofnun, heyrnartækjakaupa, sálfræðimeðferðar, umfangsmikilla tannviðgerða og ýmislegs fleira.
Réttindi félagsmanna geta verið mismunandi eftir félögum og eru félagsmenn því hvattir til að hafa samband við sitt félag til að kanna sín réttindi.