Í kjarasamningi SGS og SA, sem undirritaður var í mars 2024, var samið um svokallaðan ræstingarauka fyrir starfsfólk í ræstingum. Þetta þýðir að ræstingarfólk fékk sérstaka viðbótargreiðslu frá og með ágúst 2024.

Ræstingarauki er sérgreiðsla sem á að greiða út mánaðarlega og reiknast hún í hlutfalli við starfshlutfall, en fyrir fullt starf er ræstingarauki 19.500 kr. á mánuði. Ræstingaraukinn myndar ekki stofn undir vaktaálags- eða yfirvinnugreiðslur.

Ræstingaraukinn gildir a.m.k. út samningstímann, þ.e. til 1. febrúar 2028 og tekur ekki hækkunum á samningstímabilinu, þ.e. ræstingarauki m.v. fullt starf er 19.500 kr. á mánuði frá 1. ágúst til 1. febrúar 2028.

Starfsfólk sem starfar skv. 22. kafla  aðalkjarasamnings SGS og SA á rétt á ræstingarauka . Sá kafli tekur t.d. til þeirra sem sinna hefðbundnum ræstingarstörfum hjá ræstingarfyrirtækjunum sem og allra þeirra sem ráðnir eru beint af fyrirtækjum eða félagasamtökum á almennum vinnumarkaði til að starfa við ræstingar.

Ræstingaraukinn á ekki við um hótelstarfsfólk (þernur) sem ráðið er beint af hóteli né ræstingarfólks sem er ráðið beint til hins opinbera, svo sem á hjúkrunarheimilum, í skólum, hjá ríkisstofnunum o.s.frv.

Ef fólk starfar að hluta til við ræstingar en að hluta við önnur verkefni (t.d. í þvottahúsi, afgreiðslu eða annað) þá þarf að skilgreina starfshlutfall fyrir hvort starf um sig og er þá ræstingaraukinn greiddur hlutfallslega fyrir ræstingarhluta starfsins.

Sérgreiðslan innifelur ekki orlof. Annað hvort fá starfsmenn ræstingaraukann greiddan í orlofi eða fá orlofslaun sérstaklega á greiðsluna fyrir unninn tíma og fellur greiðslan þá niður í orlofi.

Í reiknivél SGS geta félagsmenn séð hvernig ræstingaraukinn sem og aðrar kjarasamningsbundnar hækkanir í kjarasamningi SGS og SA koma til með að líta út m.v. sínar forsendur.

Sjá má nánari upplýsingar um ræstingaraukann í grein 22.1.3. í aðalkjarasamningi SGS og SA.

Félagsmenn í aðildarfélögum SGS sem starfa við ræstingar á almennum vinnumarkaði eru hvattir til að skoða launaseðla sína vel um hver mánaðarmót og ganga úr skugga um að greiðslan skili sér.