Orlofsréttur

Allt launafólk á rétt á orlofi, það er leyfi frá störfum í tiltekinn fjölda daga auk orlofslauna sem reiknast af öllum launum. Reglur um orlof er að finna í orlofslögum og kjarasamningum. Orlofslögin kveða m.a. á um lágmarksorlof, ákvörðun orlofstöku og útgreiðslu orlofslauna en kjarasamningar hafa að geyma ákvæði um orlof umfram lágmarksorlof, hvernig það skiptist í sumar- og vetrarorlof, veikindi í orlofi o.fl.

Orlofsréttur skv. kjarasamningum SGS

Lágmarksorlof er 24 virkir dagar. Orlofslaun eru 10,17% af öllum launum.

Eftir 5 ár í sama fyrirtæki eða 10 ár í sömu starfsgrein fær starfsfólk 25 daga orlof og 10,64% orlofslaun.

Eftir 10 ár í sama fyrirtæki fær starfsfólk 30 daga orlof og 13,04% orlofslaun.

Frá og með 1. maí 2024 breytist orlofsávinnsla hjá starfsfólki sem náð hefur 22 ára aldri og hefur starfað í 6 mánuði í sama fyrirtæki, en þá á viðkomandi starfsfólk rétt á orlofi í 25 daga og orlofslaunum sem nema 10,64%. Jafnframt aukast orlofsréttindi starfsfólks sem unnið hefur í 5 ár í sama fyrirtæki í 26 virka daga og 11,11% orlofslaun. Um er að ræða breytingu á orlofi sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025.

Frá og með 1. maí 2025 eykst orlofsávinnsla hjá starfsfólki sem unnið hefur í 5 ár í sama fyrirtæki í 28 virka daga og 12,07% orlofslaun. Þessi breyting á við um orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2026.

Sjá nánar í 4. kafla í kjarasamningi SGS og Samtaka atvinnulífsins.

Lágmarksorlof er 30 dagar (240 stundir) miðað við fullt starf. Ávinnsla orlofs er hlutfallsleg miðað við starfshlutfall og starfstíma starfsmanns.

Starfsmaður skal fá 13,04% orlofsfé á yfirvinnu og álagsgreiðslur.

Sjá nánar í 4. kafla í kjarasamningi SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga. og 4. kafla í kjarasamningi SGS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Var efnið hjálplegt?