Til hamingju með daginn!
19. júní 2015 fögnum við því að eitt hundrað ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi auk þess sem eignalausir menn fengu einnig kosningarétt þennan dag. Baráttan fyrir kosningarétti kvenna í alþingiskosningum var hörð og hávær og afleiðingar þess að veita konum þennan rétt urðu ekki skelfilegar þrátt fyrir varnaðarorð. Fyrst um sinn voru það þó einungis konur yfir fertugt sem fengu kosningarétt og skyldi aldurstakmarkið lækka um eitt ár næstu fimmtán árin þar til 25 ára aldri væri náð, en það var aldurstakmark kosningabærra karlmanna. Þetta ákvæði var fellt úr gildi árið 1920. Eftir það hafa konur og karlar notið sama réttar við kosningar til alþingis. Baráttan fyrir kosningarétti eignalausra karla var ekki mikil en þótti eðlileg framvinda við breytta kosningalöggjöf.
Þess má geta að konur höfðu kosið og boðið fram í sveitastjórnarkosningum fyrir árið 1915 og fyrsta konan sem kaus í almennum kosningum á Íslandi var Vilhelmína Lever, verslunarkona á Akureyri en hún kaus í bæjarstjórnarkosningunum nyrðra árið 1863 og aftur 1866.
Fögnum degi kvenna og lýðræðis! Skrifstofa Starfsgreinasambandsins verður lokuð eftir hádegi 19. júní.