Svartur blettur sem verður að uppræta

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands, ritaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann gerir kjarasamningsbrot í ferðaþjónustunni m.a. að umtalsefni. ... Því miður er allt of algengt að vinnuveitendur brjóti á ungu fólki. Langflestir sem leita til Einingar-Iðju vegna brota á kjarasamningum starfa við ferðaþjónustu og oftar en ekki er um ungt fólk að ræða. Langur listi Ferðaþjónustan er sú grein sem hefur vaxið hraðast á undanförnum árum og telst vera stærsta atvinnugrein landsins. Vöxturinn hefur verið gríðarlegur og víðast hvar á landinu hafa ný störf skapast. Líklegast er því að ungt fólk stígi sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum með því að starfa við ferðaþjónustu. Kvartanir unga fólksins sem leitar til Einingar-Iðju vegna brota á kjarasamningum eru meðal annars vegna launa undir lágmarkstöxtum, brota á reglum um vaktavinnu, hvíldartíma, jafnaðarkaups (sem er ekki til í kjarasamningum) og launalausrar starfsþjálfunar. Listinn er reyndar ótrúlega langur. -Kvörtunum hefur fjölgað á undanförnum árum, hugsanlega í svipuðu hlutfalli og vöxtur ferðaþjónustunnar. -Ungt fólk á þetta ekki skilið. -Vinnuveitendur verða að taka sig á í þessum efnum og jafnvel virðuleg bókhaldsfyrirtæki. Trúnaður Atvinnurekendur tala gjarnan um „samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem stuðli að arðbæru, fjölbreyttu og ábyrgu atvinnulífi sem bæti lífskjör allra.“  Eining-Iðja hefur reglulega birt auglýsingar, þar sem brýnt er sérstaklega fyrir starfsfólki í ferðaþjónustu að standa vörð um réttindi sín. Tilefnið er ærið. Þá hefur félagið sömuleiðis gefið út bækling, þar sem tíundaðar eru ýmsar uppslýsingar um réttindi launþega. Á heimasíðu Einingar-Iðju er sömuleiðis hægt að nálgast margvíslegan fróðleik og starfsfólk félagsins er ávallt reiðubúið til aðstoðar. Rétt er að undirstrika að öll mál sem koma til félagsins eru trúnaðarmál. Það er því um að gera að hafa samband, ef hlutirnir eru ekki í lagi. Vissulega er oft á tíðum um vankunnáttu að ræða, en þeir sem eru með fólk í vinnu bera ríka ábyrgð. Eining-Iðja kappkostar að standa vörð um hagsmuni félagsmanna. Brot á ungu fólki er svartur blettur á vinnumarkaðnum, sem verður að uppræta. Hlutirnir eiga að vera í lagi, það er svo einfalt. Taktlaus ferðaþjónusta Ferðaþjónustan er orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum íslensku þjóðarinnar. Náttúra landsins er helsta aðdráttarafl þeirra erlendu ferðamanna sem heimsækja landið. Bæklingar ferðaþjónustunnar og auglýsingar bera þess glöggt vitni að náttúran lokkar ferðamennina til landsins. Ferðaþjónustan má hins vegar ekki gleyma því að náttúran er í eigu fólksins í landinu. Ferðaþjónustan getur hreinlega ekki verið þekkt fyrir að gera út á íslenska náttúru – sem er í eigu fólksins í landinu – og brjóta á sama tíma umsamin réttindi ungs fólks. Flest bendir til þess að íslensk ferðaþjónusta eflist enn frekar á næstu árum. Þess vegna þurfa allir að ganga í takt. Það er algjörlega taktlaust af ferðaþjónustunni að vera sú atvinnugrein sem helst brýtur á launafólki. Um það er þjóðin örugglega sammála.   Björn Snæbjörnsson Formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands
  1. 11/6/2024 2:29:58 PM Breytingar hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga frá 1. nóv…
  2. 10/18/2024 3:34:22 PM Finnbjörn Hermannsson endurkjörinn forseti ASÍ
  3. 10/16/2024 7:39:49 PM 46. þing ASÍ sett í dag
  4. 10/9/2024 5:18:22 PM Verkalýðsfélag Akraness fagnar 100 ára afmæli