Ræða formanns SGS 1. maí

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, flutti ræðu á 1. maí-hátíðarhöldum stéttarfélaganna í Skagafirði í dag. Ræðuna í heild sinni má lesa hér að neðan. ............................ Ágætu félagar til hamingju með daginn, baráttudag verkafólks ! Það er mér sönn ánægja að ávarpa þennan baráttufund. Sem formaður Starfsgreinasambands Íslands get ég vottað að gjarnan er horft til starfsemi  Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði, þegar þróttmikið félagsstarf ber á góma. Þið getið með öðrum orðum verið stolt af ykkar félagi. ... Þegar komið er í Skagafjörðinn, er ekki hægt annað en að heillast af náttúru hans og  fegurð, en ekki síst af sögunni, sem drýpur af hverju strái, eins og stundum er sagt. Víst er að Skagafjörður er eitt sögufrægasta hérað landsins. Um þar verður ekki deilt, jafnvel við Eyfirðingar getum ekki annað en viðurkennt þá staðreynd ! Háir fjallgarðar umlykja Skagafjörð til sitt hvorrar handar, með sína fjölmörgu þverdali og votlendið, þar sem jökulárnar renna til sjávar. Maður kemst ekki hjá því að leiða hugann að þeim gríðarlegu öflum, sem mótuðu ásýnd landsins og hvernig lífríkið hefur aðlagað sig að náttúrunni. Og ekki má gleyma Hólastað. Hólar voru höfuðstaður og helsta menningarsetur Norðurlands í nokkrar aldir, þess vegna er einmitt svo vel við hæfi að talað sé um að fara „heim að Hólum“ Á 250 ára afmæli Hóladómkirkju - 2013 -  sagði Vilhjálmur Egilsson rektor háskólans á Bifröst að starfsemi kirkjunnar og Háskólans á Hólum gætu eflst saman, og staðurinn öðlast nýja frægð víða um heiminn. Undir þau orð get ég vel tekið. Ágætu félagar ! Þann 1. maí, - „á baráttudegi verkalýðsins“ - er ekki bara hollt, heldur nauðsynlegt, að rifja upp þann mikla árangur sem verkalýðsbarátta í heila öld hefur skilað íslensku launafólki. Hér eru vinnuaðstæður og réttindi launafólks með því besta sem gerist í heiminum og fyrir það ber að þakka. En þessi ríku réttindi sem launamenn hér á landi hafa, féllu ekki af himnum ofan. Það er áberandi að yngra fólkið okkar í dag er ekki að velta því fyrir sér  hvernig réttindin hafa komist á, finnst það bara sjálfsagt…. en ekkert er ókeypis í henni veröld!!!!   Það voru afar okkar og ömmur sem börðust af einurð og festu fyrir bættum kjörum og réttindum komandi kynslóða og það kostaði blóð, svita og tár. Við megum aldrei sofna á verðinum, heldur standa vörð um það sem áunnist hefur í baráttunni um leið og við sækjum fram. Verkalýðsbarátta er eilífðarbarátta og engin árangur næst nema með víðtækri samstöðu!!!! Þetta skulum við hafa í huga nú á „baráttudegi verkalýðsins“. ... Í dag hugsa ég til 1. maí með meiri lotningu en stundum áður, þar sem  launafólk í landinu stendur í harðvítugri kjarabaráttu með tilheyrandi verkfallsaðgerðum. Á þessum degi gengur launafólk undir rauðum fána og leikinn er alþjóðasöngur verkalýðsins, Internasjónalinn. Rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti, sem einmitt er táknrænt fyrir þá baráttu sem íslenskt launafólk stendur í um þessar mundir. Rauði liturinn táknar líka að „nú sé nóg komið“, auk þess sem hann táknar dagrenninguna – tákn nýrra tíma. Stundum heyrist að baráttufundirnir á þessum degi séu úreltir, en það er öðru nær. Það skynjum við svo vel í dag, þegar kjarabarátta stendur sem hæst. Við berjumst enn fyrir jöfnum möguleikum allra í þjóðfélaginu. Við berjumst enn fyrir réttlátara samfélagi, frelsi, jafnrétti og bræðralagi. Þegar sagan er skoðuð sést að verkalýðshreyfingin hefur oft unnið sigur í hörðum orrustum. Þess vegna held ég að 1. maí sé táknrænn í hugum launafólks. Þessi dagur er þó ekki síður táknrænn í hugum okkar fyrir framtíðina og þá baráttu sem við eigum í  núna, þegar fréttir af verkföllum, eða væntanlegum verkföllum einkenna þjóðfélagsumræðuna. Eins og við vitum, samþykktu félögin á landsbyggðinni verkfallsaðgerðir, sem hófust fyrir alvöru í gær. Hjá Öldunni stéttarfélagi var samstaðan algjör, um 97% samþykktu verkfallsaðgerðir. Meðaltals niðurstaða  allra landsbyggðarfélaganna 16, sem kusu um verkfall, samþykktu 94,5% verkfallsaðgerðir. Skilaboðin sem verkafólk sendi vinnuveitendum í atkvæðagreiðslunni eru skýr, ekki verður fallist á nokkurra króna hækkun, sem vinnuveitendur hafa til þessa boðið á samningafundum. Við látum ekki segja okkur að þjóðfélagið fari á hausinn við það eitt að lægstu launin hækki ! Afkoma fyrirtækjanna sýnir að það er „borð fyrir báru“, við þurfum ekki annað en að hlusta á fréttir af gríðarlegum hagnaði fyrirtækjanna í helstu atvinnugreinum landsins ! Ágætu félagar ! Ólgan á íslenskum vinnumarkaði er að aukast, fleiri og fleiri stéttarfélög undirbúa verkfallsaðgerðir, einfaldlega vegna þess að ekkert þokast í kjaraviðræðunum. Verkfallsaðgerðir Starfsgreinasambands Íslands hófust í gær, meðal annars hérna í Skagafirði. Aðgerðirnar ná til yfir 10 þúsund félagsmanna aðildarfélaga sambandsins  á landsbyggðinni og munu hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt. Ef Íslendingar ætla sér að verða samkeppnishæfir við aðrar þjóðir, verða launakjörin að vera sambærileg við aðrar þjóðir. Þetta er svo einfalt reikningsdæmi, þegar við horfum á þjóðflutninga íslensk launafólks til annarra landa á undanförnum árum. Nú ætla launþegar að rétta sinn hlut, exelskjöl lögfræðinga og hagfræðinga vinnuveitenda breyta engu þar um. Samstaðan er okkar helsta vopn, niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni sýnir að við stöndum saman og á næstu vikum mun sannarlega reyna á okkur í þessum efnum. Þess vegna strengjum við þess heit á þessum degi – baráttudegi verkalýðsins- að standa saman. Skagfirðingar þekkja mikilvægi samstöðu, meðal annars þess vegna var niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni ótvíræð ! ... Við Íslendingar berum okkur gjarnan saman við hin Norðurlöndin. Gott og vel, gerum það þá. Berum saman launin. Samkvæmt viðurkenndum mælingum, kemur í ljós, þegar litið er til reglulegra dagvinnulauna í þessum löndum, að það hallar verulega á láglaunahópana á Íslandi. Dagvinnulaun stjórnenda á Íslandi eru hins vegar í raun 5% hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Ef litið er á dagvinnulaun sérfræðinga eru þau um 3-5% lægri hér á landi en í samanburðar-löndunum, hæst eru laun sérfræðinga í Noregi en lægst í Svíþjóð. Mestur munur á dagvinnulaunum er hins vegar hjá almennu verkafólki, þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki. Hér á landi eru dagvinnulaun almenns verkafólks allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Já, ég segi og skrifa, munurinn er 30 % miðað við hin Norðurlöndin. Á baráttudegi verkalýðsins, skulum við hafa þennan samanburð í huga. Við skulum líka draga fram nýjar tölur, sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku. Árið 2012 var launakostnaður fyrir greidda vinnustund í Evrópu hæstur í Noregi, en þar kostaði hver stund 57 evrur. Á Íslandi  var launakostnaður á greidda stund að meðaltali 23 evrur, sem var meira að segja lægri en að meðaltali hjá löndum Evrópusambandsins þar sem hann var 24 evrur. Sjálfsagt hafa þessar tölur eitthvað breyst, en ég efast um að þær breytingar séu stórvægilegar. Ég hef alla vega ekki orðið var við að vinnuveitendur hafi fett fingur út í þennan samanburð. Líklega vegna þess að það hentar þeim ekki ! En það eru ekki bara atvinnurekendur sem ekki vilja semja við okkur, það er líka ríkisvaldið, sem hefur komið illa fram og svikið loforð og samninga sem gerðir hafa verið. Hvað með örorkuframlagið sem verið er að fella niður ?  Það mun hafa mikil áhrif á okkur hér, þar sem örorkubyrði er mjög há á Norðurlandi. Hvað með styttingu á bótarétti þeirra sem verða fyrir því að missa vinnuna ? Er ekki nógu slæmt að missa vinnuna og fá ekki aðra vinnu, svo ekki sé verið að gera fólki erfiðara fyrir, með því að fella það út af bótum eftir skamman tíma og senda það á sveitarfélagið, frekar ætti að setja meiri fjármuni í að hjálpa fólki að fá vinnu við sitt hæfi? Við eigum að geta gert betur, en það er alltaf spurning um forgangsröðun hjá stjórnvöldum. Í fyrsta skipti nú í langan tíma gera félög innan ASÍ ekki kröfur á stjórnvöld í aðdraganda kjaraviðræðna,  þar sem þau njóta ekki trausts innan hreyfingarinnar. Ef stjórnvöld vilja endurheimta traustið þá verða þau að hafa fyrir því í verki ekki í orði. Það vara svo einfalt. - Ráðamenn þjóðarinnar virðast reyndar ekki hafa neinar áhyggjur af þessari stöðu. ... Samkvæmt lögum Öldunnar stéttarfélags er meðal annars tilgangurinn með stofnun félagsins að sameina allt launafólk sem starfar á félagssvæðinu, vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna. ásamt því að vinna að fræðslu- og menningarmálum. Verkalýðshreyfingin á – og hefur – alltaf haft ríkan áhuga á uppbyggingu atvinnulífsins. Fyrsti maí er ekki bara baráttudagur vinnandi fólks, hann er báráttudagur fyrir aukinni atvinnu. Á Íslandi teljast það mannréttindi hvers einstaklings að hafa vinnu við sitt hæfi, því það er besta leiðin til að sjá sér og sínum farborða. Við verðum að tryggja að allir sem geta unnið fái vinnu við sitt hæfi. Það á alltaf að vera  krafa dagsins. Það er líka mikilvægt fyrir samfélagið okkar að það fái notið starfskrafta sem flestra. Aðeins þannig náum við að halda uppi því velferðarkerfi sem við viljum hafa í landinu okkar. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar hefur atvinnuleysi í háa herrans tíð verið lægra á Norðurlandi vestra, en á landinu öllu. Það er auðvitað mjög jákvætt. Hins vegar segja hagtölur okkur að atvinnutekjur fólks á svæðinu séu lægri en á landinu öllu. Það er óþolandi og þess vegna þurfa allir að leggjast á eitt við að hækka meðaltekjurnar á Norðurlandi vestra. Verkalýðshreyfingin skorast ekki undan í þeirri viðleitni. Landsbyggðin hefur víða átt undir högg að sækja, höfuðborgarsvæðið sogar til sín fólk og fjármuni. Þetta þekkjum við öll. Í gildandi byggðaáætlun er talað um að stuðlað verði að fjölbreyttum atvinnutækifærum um land allt með dreifingu starfa á vegum ríkisins. Hefur þetta gengið eftir ? - Svari nú hver fyrir sig - Það er ekki nóg að setja göfug markmið á blað, en standa svo ekki við þau ! Skagfirðingar og Eyfirðingar þekkja ágætlega umræðuna, þegar lagt er til að flytja opinber störf út á land. Ef ég man rétt, er hlutfall opinberra starfa á Norðurlandi vestra, lægra en hlutfall íbúa landsins. Við viljum byggja landið allt, og það þýðir að dreifa verður opinberum störfum. Það segir sig sjálft, ekki nægir að setja sér göfug markmið í þessum efnum ! Sem betur fer, er ekkert byggðarlag á Norðurlandi vestra skilgreint inn í verkefnið Brothættar byggðir, en segja má að gul ljós blikki, það er að segja hjá nágrönnum ykkar við Húnaflóann. Gleymum því ekki, að okkur kemur öllum við, hvernig staðan er í nágranna-sveitarfélögum. Verkalýðshreyfingin hefur verk að vinna í byggðamálum. Skagfirðingar og Eyfirðingar hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta og við eigum að íhuga möguleikana á enn frekari samvinnu í þessum málum, verkalýðshreyfingin getur beitt sér víða. Verkalýðshreyfingin á að láta byggðamál sig varða. ... Aðgengi að menntun, símenntun og starfsendur-hæfingu er forsenda fyrir nýsköpun. Líklega er stofnun Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, eitt stærsta framfaraskref, sem stigið hefur verið á Norðurlandi vestra í langan tíma. Menntun er lykilatriði til að búa sig undir framtíðina og takast á við breytingar, jafnt fyrir einstaklinga og samfélagið. Verkalýðshreyfingin hefur lagt aukna áherslu á menntamál og ég er sannfærður um að áherslan eykst enn frekar á komandi árum. Með tilkomu starfsmenntasjóðanna hafa möguleikar til náms aukist til mikilla muna og miklir fjármunir koma heim í héruðin úr þessum sjóðum. Námsframboðið er fjölbreytt og tæknin gerir það að verkum að fjarnám er raunhæfur og góður kostur. Þetta skiptir okkur á landsbyggðinni gríðarlega miklu máli. Með aukinni menntun aukast líkurnar á hærri launum. ... Skagfirðingar standa á margan hátt vel í menntamálum, hér eru öflugir leik- og grunnskólar. Símenntunar-miðstöð starfar af krafti, framhaldsskóli er á svæðinu og háskóli. Háskólinn á Hólum rekur vísindagarða á Sauðárkróki, þekkingarsetur sem hefur skapað mörg störf og gert svæðið samkeppnishæfara til að vaxa og dafna. Ég hef tekið eftir fjölmörgum ályktunum frá Skagfirðingum um stöðu Háskólans á Hólum á undanförnum árum og hvet ykkur til að standa vörð um skólann. Ég sagði áðan að við værum enn að berjast fyrir jöfnum möguleikum allra í þjóðfélaginu. Menntun er þar ekki undanskilin.   Ágætu félagar ! Á baráttudegi verkalýðsins eigum við að horfa til framtíðar. Vissulega stöndum við í kjarabaráttu þessa dagana, og við skulum ekki gleyma því að kjarabarátta snýst líka um framtíðina. Kröfur okkar eru sanngjarnar og eðlilegar ! Þjóðin stendur með okkur í kjarabaráttunni, það hefur berlega komið fram í allri opinberri umræðu ! Ég segi því við ykkur:  Réttlætið er okkar megin ! ... Ég þakka Öldunni stéttarfélagi fyrir að bjóða mér hingað í Skagafjörðinn. Með samstöðu í kjarabaráttunni munum við hafa sigur. Við munum ná mannsæmandi launum. Til hamingju með 1. mai, frídag verkalýðsins.
  1. 1/8/2025 2:04:42 PM Hvatning til ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja - yfirlýsin…
  2. 12/25/2024 8:36:22 PM Launahækkun á almennum vinnumarkaði 1. janúar
  3. 12/23/2024 1:52:05 PM Gleðilega hátíð (1)
  4. 12/17/2024 6:01:56 PM Viðsjárverð þróun í leikskólamálum