Miðstjórn ASÍ brýnir launafólk fyrir veturinn

Miðstjórnarfundi ASÍ lauk fyrir skemmstu þar sem eftirfarandi ályktun var samþykkt: Miðstjórn ASÍ lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórnin velji með fjárlagafrumvarpi sínu fyrir árið 2015 að ráðast enn og aftur gegn hagsmunum launafólks í stað þess að hefja uppbyggingu velferðarkerfisins. Almennt launafólk hefur á síðustu árum tekið á sig miklar byrðar með samdrætti í tekjum, auknum útgjöldum og skuldsetningu sem leitt hafa til minni kaupmáttar. Þetta á ekki síst við um lágtekjuhópa og lífeyrisþega. Á sama tíma hefur verið skorið verulega niður í heilbrigðis-, velferðar og menntakerfinu sem leitt hefur til meiri greiðsluþátttöku, minni þjónustu og meira óöryggis. Launafólk sem færði miklar fórnir hefur réttmætar væntingar um að endurreisn og uppbygging velferðarkerfisins hafi ríkan forgang nú þegar viðsnúningur hefur orðið í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar.

Því er haldið að launafólki að nauðsynlegt sé að mæta minni tekjum ríkissjóðs með aðhaldsaðgerðum og margháttuðum skerðingum gagnvart almenningi. Alþýðusamband Íslands hafnar alfarið slíkum málflutningi og bendir á að skattar á eignafólk og hátekjumenn hafa verið lækkaðir svo um munar. Þá hafa skattar á fyrirtæki sem skila methagnaði verið lækkaðir umtalsvert þannig að samtals hefur ríkisstjórnin skert tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lítur þessa aðför að almennu launafólki mjög alvarlegum augum og telur engan grundvöll fyrir frekara samstarfi eða samræðu við ríkisstjórnina verði þetta að veruleika.  Aðgerðir ríkisstjórnarinnar kalla á að aðildarfélög ASÍ undirbúi sig og félagsmenn sína fyrir harðari deilur við gerð kjarasamninga en verið hefur um áratuga skeið. Við þessar aðstæður þarf verkalýðshreyfingin að þétta raðir sínar. Hún verður að beina spjótum sínum að viðsemjendum sínum til að rétta hlut félagsmanna bæði með tilliti til réttmætra leiðréttinga á launum en einnig til að treysta stöðu launafólks í þeirri aðför sem stjórnvöld virðast í gagnvart öðru fólki en því ríkasta í landinu. Aðförin að launafólki felst meðal annars í: Hækkun á matvælum Hækkun virðisaukaskatts á matvæli er aðför að hagsmunum launafólks sem ver stórum hluta tekna sinna til kaupa á mat- og drykkjarvöru. Þær mótvægisaðgerðir sem boðaðar eru munu aðeins gagnast hluta lágtekjufólks og aðeins að takmörkuðu leyti. Atvinnuleysistryggingar                     Aðför að atvinnulausu fólki sem boðuð er með styttingu bótatímabilsins er fordæmalaus og mun koma sérstaklega illa við þá sem veikast standa á vinnumarkaði og auka enn á fátækt í landinu.  Starfsendurhæfing                             Með því að fella niður lögboðið og umsamið framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs er vegið með alvarlegum hætti að hagsmunum fólks sem veikist og slasast og þarf á starfsendurhæfingu að halda. Með því er dregið úr möguleikum þess að komast aftur á vinnumarkað og þannig til virkrar þátttöku í samfélaginu. Heilbrigðismál                                     Skerðingar á framlögum til jöfnunar örorkubyrða almennra lífeyrissjóða veldur því að skerða þarf lífeyrisgreiðslur til félagsmanna Alþýðusambandsins, og er félagsmönnum þeirra sjóða þannig enn á ný mismunað gagnvart þeim sjóðum sem njóta ríkisábyrgðar. Kostnaður vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu eykst verði frumvarpið að lögum og þannig er sérstaklega vegið að hagsmunum sjúklinga og allra þeirra sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Húsnæðismál                                       Ekki er gert ráð fyrir neinum auknum framlögum til að mæta kröfum um úrbætur í húsnæðismálum, hvorki í almenna húsnæðiskerfinu eða vegna félagslegra íbúða. Menntamál                                          Þrátt fyrir fögur fyrirheit ráðamanna um að efla starfs-, verk- og tæknimenntun er dregið hlutfallslega úr framlögum til verkmenntaskóla og vinnustaðanámssjóður þurrkaður út. Möguleikar fólks á vinnumarkaði til að sækja nám í framhaldsskólum eru skertir verulega. Þá er framlag til framhaldsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun skert umtalsvert. 

  1. 11/22/2024 2:16:19 PM Desemberuppbót 2024 - nýjar reiknivélar
  2. 11/21/2024 2:32:56 PM Kjaramálafulltrúar komu saman á fræðsludegi
  3. 11/6/2024 2:29:58 PM Breytingar hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga frá 1. nóv…
  4. 10/18/2024 3:34:22 PM Finnbjörn Hermannsson endurkjörinn forseti ASÍ