Það er talið að 17% mansalsfórnarlamba í heiminum séu þrælar á vinnumarkaði. Rúmlega 60% mansalsfórnarlamba eru í kynlífsánauð og 8% eru bæði í kynlífsánauð og vinnuafl í þrælkun. Líklegra er að konur séu í kynlífsánauð en hinsvegar eru karlar meirihluti þræla á vinnumarkaði. Þessar tölur gefa til kynna að verkalýðshreyfingin þarf að taka virkan þátt í að greina fórnarlömbin og vinna að úrræðum og upprætingu þrælkunarvinnu. Með aukinni alþjóðavæðingu hefur vandinn vaxið, þrælar hafa aldrei verið fleiri í heiminum (ekki einusinni þegar þrælasala var lögleg) og þeir hafa aldrei verið ódýrari.
Innanríkisráðuneytið stóð fyrir málþingi um mansal síðastliðinn febrúarmánuð og fengu tvo erlenda sérfræðinga til að skýra stöðuna; þau Natalia Ollus frá Finnlandi og Rudolf Christoffersen frá Noregi. Að auki tóku til máls sérfræðingar frá Íslandi, Friðrik Smári Björgvinsson frá lögreglunni, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Sigurður Magnússon frá ASÍ. Niðurstöður málþingsins geta nýst verkalýðshreyfingunni vel enda var það mál fólks að hún væri í lykilstöðu til að finna og aðstoða fórnarlömb mansals á vinnumarkaði.
Mansal er ekki annaðhvort eða, oft hafa fórnarlömbin samþykkt að flytja á milli landa og jafnvel gengist undir óviðunandi aðstæður á vinnumarkaði. Það er mjög sjaldgæft að notað sé líkamlegt ofbeldi en algengara er að fólk starfi undir hótunum og frelsisskerðingu. Þá getur vinna sem hófst löglega breyst í nauðungarvinnu og öfugt. Þannig getur mansal verið einhversstaðar á gráu svæði sem gerir verkalýðshreyfingunni erfiðara um vik að greina það.
Alþjóða Vinnumálastofnunin (ILO) hefur gefið út leiðbeiningar um hvað getur bent til þess að um mansal sé að ræða. Ef til dæmis verkamaður hefur ferðast um langan veg til að starfa þá eru töluverðar líkur á að hann hafi steypt sér í skuldir við ferðalagið og sé undir hælnum á vinnumiðlara sem hirðir launin. Stundum er kerfið í kringum mansalið fullkomlega „löglegt“ á yfirborðinu, launin fara í gegnum hefðbundna bankareikninga, staðið er skil á opinberum gjöldum o.þ.h. en starfsmaðurinn fær hins vegar lítið eða ekkert af laununum þegar upp er staðið. Það er því nauðsynlegt að skoða umgjörðina utanum vinnuna frekar en starfið sjálft. Mansalsfórnarlamb er ekki hlekkjað við vélina heldur getur verið um venjulegan starfsmann að ræða sem er þó hvorki frjáls ferða sinna né fær sanngjarna umbun fyrir störf sín.
Til að greina hvort um mansalsfórnarlamb er að ræða þarf því að komast að því hvort viðkomandi er berskjaldaður og/eða háður öðrum aðila. Ef sú er raunin þarf að skoða málin nánar. Sömuleiðis þarf að vera vakandi fyrir misnotkun á fólki í svartri atvinnustarfsemi, í gegnum au-pair samninga og starfsþjálfunarsamninga. Munum að mansal getur tekið á sig alls konar birtingamyndir og á köflum getur verið erfitt að meta hvort um kjarasamningsbrot er að ræða eða hreinlega mansal. Aukin alþjóðavæðing krefst þess að fólk innan verkalýðshreyfingarinnar og víðar sé meðvitað um vandann, þekki einkenni mansals og sé tilbúið til að gefa sér tíma til að skoða málin nánar ef grunur vaknar.