Kristján Bragason ráðinn framkvæmdastjóri NU-HRCT
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, Kristján Bragason, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Norrænna samtaka starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og ferðaþjónustu. Sjö landssambönd á Norðurlöndunum eiga aðild að samtökunum og eru félagsmenn um 115.000 talsins. NU-HRCT er eitt af þeim norrænu félögum sem SGS á aðild að með virkri þátttöku. Samtökin eru öflug í stefnumótun fyrir samnorrænan markað gáfu nýverið gefið út atvinnustefnu í ferðaþjónustu þar sem lögð er áhersla á sjálfbærni og samkeppnisstöðu Norðurlandanna.
Kristján Bragason starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Starfsgreinasambandinu á árunum 2011-2012 og áður á tímabilinu 2000-2004. Frá 1996 starfaði hann sem sérfræðingur, fyrst hjá Verkamannasambandinu og seinna hjá Starfsgreinasambandinu, þegar það var stofnað.
Kristján segir: „Þetta er mjög spennandi verkefni sem ég á fyrir höndum, atvinnugreinarnar innan NU-HRCT eru hratt vaxandi bæði á Íslandi og á Norðurlöndunum. Sú staða býður upp á mörg áhugaverð verkefi sem snúa að bættum kjörum og aðstöðu launafólks. Þar á meðal má nefna málefni eins og fræðslumál, baráttuna gegn svartri atvinnustarfsemi og ímynd ferðaþjónustunnar.“
Kristján tekur til starfa um miðjan febrúar næstkomandi. Starfsgreinasambandið óskar Kristjáni til hamingju með starfið og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.[hr toTop="false" /]