Ráðherrar og þingmenn hafa lýst þeirri skoðun sinni að lægstu laun í landinu séu of lág, þau þurfi að hækka. Lægst launaða fólkið innan Starfsgreinasambandsfélaganna er m.a. á launum hjá ríkinu. Fjárlagafrumvarpið gerir hins vegar ekki ráð fyrir neinum launahækkunum í gjaldalið þess á næsta ári. Í tekjulið frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir 5% hækkun. Frumvarpið er með öðrum orðum í mótsögn við sjálft sig. Fjárlagafrumvarpið er vissulega ekki heilagt plagg. Það þarf að meðhöndla í þinginu og verður spennandi að sjá hvernig þingmenn og ráðherrar munu bregðast við í umfjöllun sinni um fjárlögin þegar kemur að launaliðnum þannig að unnt verði í orði að hækka lægstu launin.
Við hefðbundnar kjaraviðræður liðinna ára hafa aðilar vinnumarkaðarins komist að einhverri tiltekinni niðurstöðu. Sú niðurstaða hefur verið kynnt ríkisvaldinu með það að markmiði að ríkisvaldið tryggði ýmsar félagslegar úrbætur í tengslum við kjarasamninga. Stöðugleiki á vinnumarkaði og vinnufriður er forsenda fyrir því að efnahagslegur stöðugleiki náist. Það er ástæðan fyrir því að ríkisvaldið hefur haft aðkomu að kjarasamningum á liðnum árum. Þessu er öfugt farið núna. Hið mótsagnakennda fjárlagafrumvarp í launamálum og sú pólitíska og efnahagslega óvissa sem ríkir í landinu gerir kjarasamningsumhverfið ákaflega vandmeðfarið.
Stöðugleiki á vinnumarkaði byggir á stöðugleika efnahagslífsins og þar með talið krónunnar sem nú er varin með höftum og fjárhagslegri aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS). Forsætisráðherra hefur staðfest að ríkisstjórnin hafi samþykkt gildandi samstarfsáætlun við sjóðinn meðan Liljurnar í Vinstri grænum vilja rjúfa samstarfið við AGS.
Þessi pólitíska óvissa um hvert ríkisstjórnin stefnir í efnahagsmálum er ekki til þess fallin að skapa trúverðugan jarðveg fyrir stöðugleika á vinnumarkaði. Til þess þarf þrennt að koma til: Pólitísk staðfesta um að fylgja efnahagsáætlun AGS alla leið. Stefnt sé að stöðugum gjaldmiðli, evru í stað ónýtrar krónu og í þriðja lagi erlendar fjárfestingar til að örva atvinnulífið sem er eina færa leiðin til að lyfta okkur upp úr þeirri fátækt íslenska kotsamfélagsins sem við höfum hafnað í.
Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ. Það vigtar því þungt í þeirri umræðu sem framundan er um efnahags- og kjaramál í tengslum við komandi kjarasamninga. Í þeim samningum viljum við flýta okkur hægt. Að sjálfsögðu þarf að hækka lægstu launin eins og ráðherrar og þingmenn eru meðvitaðir um. Okkar megin áhersla er á að endurheimta kaupmáttinn með öllum tiltækum samfélagslegum úrræðum, en til þess verða að vera efnahagslegar og pólitískar forsendur. Séu þær forsendur ekki til staðar verður að skapa þær með þverpólitískri samstöðu. Meðferð þingsins á fjárlagafrumvarpinu og pólitísk þróun næstu vikna ræður úrslitum um hvað verður.