Formaður SGS á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, mætti á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær í þeim tilgangi að reifa afstöðu SGS vegna fyrirhugaðra áforma stjórnvalda um lækkun og afnám framlags til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2025 er lagt til að á árinu 2025 renni framlagið eingöngu til lífeyrissjóða með þyngstu örorkubyrðina en þar er átt við lífeyrissjóði þar sem hlutfall örorkuskuldbindingar af framtíðarskuldbindingu er einu prósentustigi yfir meðaltali örorkuskuldbindingar sjóðanna.

Eins og áður sagði þá reifaði Vilhjálmur afstöðu SGS til málsins og talaði tæpitungulaust við nefndarmenn. Í máli Vilhjálms kom m.a. fram að sambandið liti á fyrirhuguð áform sem grófa aðför að lífeyrisréttindum verkafólks. Vilhjálmur áréttaði að það framlag sem núna er við lýði dugi ekki einu sinni til að standa undir því hlutverki að jafna örorkubyrði á milli lífeyrissjóða og því væri fráleitt að ætla að skerða þetta framlag enn frekar og leggja því frekari byrðar á þá sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði. Þá benti Vilhjálmur nefndinni á að hjá verkafólki er örorkubyrði margfalt meiri en hjá öðrum starfsgreinum og í ljósi þeirrar staðreyndar væri lítil sanngirni er fólgin í því að smala vinnandi fólki eftir starfsgreinum í lífeyrissjóði - sjóðum sem  eiga að heita samtryggingarsjóðir.

Vilhjálmur ítrekaði að þessi fyrirhuguðu áform myndu koma til með að bitna illilega á sjóðsfélögum þeirra lífeyrissjóða sem starfa á samningssviði SGS, sbr. þá þyrftu lífeyrissjóðir verkafólks að skerða núverandi lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga sem og réttindaávinnslu um allt að 4%. Yrði frumvarpið að veruleika sé um að ræða verulegar kerfisbreytingar og útilokað að leggja þær byrðar á verkafólk eitt og sér.

Við þetta má bæta að SGS hefur þegar sent inn formlega umsögn um málið, en hana má nálgast hér.


Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS

 

 

 

  1. 12/17/2024 6:01:56 PM Viðsjárverð þróun í leikskólamálum
  2. 12/10/2024 3:23:50 PM Formenn SGS fordæma aðfarir SVEIT og Virðingar í garð verkaf…
  3. 12/6/2024 1:41:51 PM Varað við nýju "stéttarfélagi" í veitingageiranum
  4. 11/22/2024 2:16:19 PM Desemberuppbót 2024 - nýjar reiknivélar