Aðildarfélög innan SGS senda stjórnvöldum tóninn

Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag og Stéttarfélagið Samstaða hafa sent frá sér harðorðar ályktanir þar sem stefna stjórnvalda og nýtt fjárlagafrumvarp er  m.a. gagnrýnt harkalega. Ályktun frá Bárunni stéttarfélagi Báran, stéttarfélag  lýsir vanþóknun sinni á því hugarfari sem lýsir sér  í flestum þeim aðgerðum stjórnvalda sem snerta almennt launafólk á Íslandi og opinberar, í besta falli algjöra  vanþekkingu á kjörum venjulegs fólks. Það  verður ekki lengur við unað að láglaunahópar innan verkalýðshreyfingarinnar beri hitann og þungann af viðreisn efnahagslífsins. Hagsmungæsla stjórnvalda gagnvart þeim efnameiri  í formi lækkaðra og niðurfelldra skatta eru stjórnvaldsaðgerðir sem ekki eru til þess fallnar að jafna kjörin. Almennt launafólk á Íslandi er búið að leggja sitt á vogarskálar efnahagsviðreisnarinnar og hefur borið þær byrðar möglunarlítið meðan ákveðnir hópar samfélagsins hafa komið sér undan því að taka ábyrgð og haldið sínu striki. Ljóst er að nægt fjármagn er til í landinu til að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Um það vitna hagnaðartölur fyrirtækja og hækkandi laun stjórnenda þeirra. Báran, stéttarfélag hvetur stjórnvöld til að setjast niður til heiðarlegra viðræðna um hvernig skipta má lífsgæðum þessa lands á sanngjarnari hátt en nú er.   Ályktun frá Framsýn stéttarfélagi Framsýn stéttarfélag gerir alvarlegar athugasemdir við framkomið fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Í frumvarpinu er ráðist að ákveðnum grunngildum sem miða að því að fólk geti séð fyrir sér og sínum með reisn. Hvað ríkisstjórninni gengur til með að skerða réttindi atvinnulausra er ekki vitað. Þá er með hækkun á matarskatti verið að auka enn frekar álögur á lágtekjufólk.  Því miður fyrir láglaunafólk í landinu slær hjarta ríkisstjórnarinnar ekki með þeim tekjulægri í þjóðfélaginu. Fjárlagafrumvarpið staðfestir það sem og þær skattkerfisbreytingarnar sem gerðar voru síðasta vetur þegar þeir tekjulægstu voru skildir eftir. Greinilegt er að ríkisstjórnin hefur ekki áhuga fyrir því að vinna með verkalýðshreyfingunni í því að skapa þjóðfélag sem byggir á jöfnuði. Verkalýðshreyfingunni ber skylda til og mun svara þessum skilaboðum með skýrum hætti í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur og í samskiptum við stjórnvöld. Ábyrgðin liggur ekki bara hjá verkalýðshreyfingunni.   Ályktun frá Stéttarfélaginu Samstöðu Stéttarfélagið Samstaða mótmælir harðlega  þeirri aðför að launafólki sem birtist í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hækkun virðisaukaskatts á matvæli, skert réttindi atvinnulausra  og lækkun framlags ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða  ,eykur á byrðar lágtekjuhópa  og sýnir að  þeir eru ekki í forgangshópi ríkisstjórnarinnar. Með þessu frumvarpi  er ríkisstjórnin að gefa  samstarfi og samræðum við verkalýðshreyfinguna langt nef. Við þær aðstæður þarf verkalýðshreyfingin að svara þeim skilaboðum  skýrt og búa sig undir harðari deilur við gerð kjarasamninga en verið hafa um langa hríð. Félög innan ASÍ hafa sýnt mikla ábyrgð við gerð samninga á undanförnum árum.  Þau eiga ekki að bera hana ein  í þjóðfélagi  sem vill byggja á jöfnuði  og sanngirni fyrir þegna sína.
  1. 12/25/2024 8:36:22 PM Launahækkun á almennum vinnumarkaði 1. janúar
  2. 12/23/2024 1:52:05 PM Gleðilega hátíð (1)
  3. 12/17/2024 6:01:56 PM Viðsjárverð þróun í leikskólamálum
  4. 12/10/2024 3:23:50 PM Formenn SGS fordæma aðfarir SVEIT og Virðingar í garð verkaf…