8. þing SGS sett - ræða formanns

Áttunda þing Starfsgreinasambands Íslands var sett í Hofi á Akureyri í dag. Setningarræða Björns Snæbjörnssonar, formanns sambandsins, fer hér á eftir.

Innviðaráðherra, forseti ASÍ, bæjarstjórinn á Akureyri, kæru þingfulltrúar og aðrir gestir Velkomin á 8. þing Starfsgreinasambands Íslands, sem haldið er að þessu sinni á Akureyri.

Þetta þing er nú heldur seinna en átti að vera vegna þess faraldurs sem geisað hefur hjá okkur, en hér erum við mætt og tilbúin að skipuleggja starfið sem er framundan.

Ég vona að ykkur muni líka það sem Eyjafjörðurinn hefur upp á að bjóða þessa þrjá daga sen við verðum hér, og óska okkur öllum góðs þings.

Það er fleira en veiran sem er að hrjá okkur. Stríðsátök í Úkraínu og þær miklu hörmungar sem borgarar þess lands mega líða fyrir það eitt að veruleikafirrtur leiðtogi Rússa hefur gefið fyrirskipanir um stríð. Ég vil biðja alla að standa á fætur og taka þátt í mínútu þögn  til að sýna félögum okkar samstöðu.

Takk fyrir.

Síðustu tvö ár hafa verið mjög skrítin. Allir þessir Teams og Zoom fundir hafa bjargað miklu, en það að geta ekki hist og talað  saman  hefur gert það að verkum að við höfum fjarlægst, bæði innbyrðis og einnig held ég að félagsmenn okkar finni fyrir því að við höfum ekki getað verið eins vakandi á vinnustöðum eins og við gerðum fyrir Covid.

En trúnaðarmannakerfi stéttarfélaganna hefur sýnt hvers það er megnugt og hefur haldið sambandinu virku.

Ábyrgð okkar sem vinnum fyrir stéttarfélög og erum fulltrúar vinnandi fólks er mikil. Vinnumarkaðurinn er sífellt að breytast og áskoranir framtíðarinnar eru miklar og erfiðar. Hann mun sennilega gjörbreytast á næstu árum, enda eru tæknibreytingar mjög örar og við getum varla ímyndað okkur hvert framhaldið verður.

Samkvæmt sumum spám mun um helmingur starfa, sem fólk innan okkar hreyfingar vinnur í dag, hverfa næstu tvo áratugi og samkvæmt öðrum spám verður hið hefðbundna ráðningarsamband atvinnurekenda og launmanns veikara.

Nú þegar verðum við vör við alls konar vinnusambönd, sem ekki eru innan ramma laganna og má þar sérstaklega nefna ástandið í ferðaþjónustunni.

Þar sjáum við ólögleg sjálfboðastörf, gerviverktöku, tímaráðningar og aðra ólöglega ráðningarsamninga og tími okkar fer sífellt meira í slík mál.

Í þessu ástandi er sterk verkalýðshreyfing gríðarlega mikilvæg og sá lagarammi sem við búum við gerir okkur kleift að aðstoða alla sem til okkar leita.

Allir eru skuldbundnir til að greiða í stéttarfélag og það gerir okkur líka skyldug til að veita öllum þjónustu. Það er mjög mikilvægt.

Við verðum að passa vel upp á að einingar okkar séu nógu sterkar til að veita öllum þessa þjónustu. Nógu sterkar til að verja íslenskan vinnumarkað gegn félagslegum undirboðum, því allir tapa á slíku.

Þetta snýst um að veita sem besta þjónustu, vera tilbúin til að taka framtíðaráskorunum og verja leikreglur vinnumarkaðarins.

Skipulag og uppbygging verkalýðshreyfingarinnar má ekki vera fjötur um fót í þessum verkefnum.

Við verðum að vera tilbúin að stokka kerfið okkar upp, sameina félög og efla samstarf ef nauðsyn krefur.

Við verðum alltaf að hugsa hvað sé best fyrir félagana og láta rótgróið skipulag víkja ef svo ber undir.

Það er því mikilvægt að vera í góðu samstarfi við stjórnvöld í landinu, það er því miður ekki alltaf skilningur hjá hinu pólitíska valdi á þeim verkefnum og hlutum sem okkur finnst augljóst að eigi að fara í og því sem þau telja nauðsynleg.

Auðvitað er verið að berjast um peninga og forgangsröðun, við viljum styðja betur við þá sem minnst hafa og mér finnst of hægt hafa gengið í þeim málum

Sjáum til dæmis barnafólkið sem veigrar sér við að sækja heilbrigðisþjónustu vegna fjárskorts eins og komið hefur fram í könnunum.

Er ásættanlegt að fólk eyði nær öllum launum sínum í leigu og hvað er þá eftir til að fæða og klæða sig og sína fjölskyldu. Það er alltaf verið að tala um meðaltal og það sé svona og svona en það lifir enginn á einhverju meðaltali, það eru launin sem skipta máli.

En það er ekki allt slæmt og á síðasta kjörtímabili náðust áfangar í samskiptum við stjórnvöld, nefni ég þar sérstaklega fæðingarorlofið.

Það er gott að hafa Innviðaráðherra hér í salnum við upphaf þessa þings og að hann finni að verkalýðshreyfingin  er afl sem getur og vill hafa áhrif á það sem er að gerast í landinu á hverjum tíma.

Næsta haust verða kjarasamningar okkar lausir og félögin innan SGS eru á fullu að undirbúa kröfugerð sína.

Það mun margt koma fram, en það sem mun standa upp úr eru hækkun launataxtanna og húsnæðisvandinn. Því heiti ég á ríkistjórnina að koma með raunverulegar lausnir á þeim mikla húsnæðisvanda sem nú er um allt land.

Það eru réttindi hverrar manneskju að hafa öruggt húsaskjól og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því á hverjum degi hvort leigunni verði sagt upp eða ekki.

Atvinnurekendur eru byrjaðir að kyrja sinn söng sem alltaf hefur verið kyrjaður fyrir alla þá samninga sem ég man eftir. Að ekkert sé til og ef menn hækki laun þá fari allt af stað og óáran leggst yfir landið.

Munið þið ágætu þingfulltrúar eftir því að eitthvað hafi verið til hjá atvinnurekendum þegar kemur að samningum?

Ég man það allavega ekki.

En það er í meira lagi sorglegt að heyra sömu menn tala um miklar launahækkanir og taka svo sjálfir hækkanir á sama tíma sem nemur einum til tveimur verkamannalaunum á mánuði.  

Búa virkilega svona aðilar í einhverjum öðrum heimi en almúginn á Íslandi. Þetta er ekki eitthvað sem við viljum og munum ekki líða. Það er nóg til er kjörorð ASÍ og það er sannarlega rétt, eða er það bara fyrir fáa en ekki fjöldann að mati SA.

Ef við horfum inn á við í hreyfingunni þá eru persónulegar deilur manna á milli alltof algengar og í seinni tíð rætnari en ég hef áður kynnst á mínum ferli. Auðvitað eigum við að takast á um alls konar hluti málefnalega og standa svo saman um niðurstöðuna.

Svona deilur gera ekkert annað en að rýra trú fólks á hreyfingunni og minnka áhrif hennar. Ég er ekki viss um að hinn almenni félagi í stéttarfélögunum skilji tilganginn með þessari framgöngu.

Verkefnin eru mörg framundan og margt sem við þurfum að gera.

Eitt að því mikilvæga er vinnustaðaeftirlitið sem við komum á fót og hefur skilað umtalsverðum árangri, en það er afar dapurlegt að samstarf við opinberar stofnanir hefur ekki gengið sem skyldi og við verðum að koma því á koppinn aftur.

Það þarf að vera hægt að skoða allt í einni ferð, kaup og kjör starfsfólks, aðbúnað starfsfólks, skil á opinberum gjöldum og jafnvel húsakost ef starfsfólk er í húsnæði á vegum atvinnurekanda.

Við verðum líka að geta brugðist hratt við ef ljóst er að fólk vinnur eða býr við óviðunandi aðstæður.

Stéttarfélögin hafa takmarkaðar heimildir til að bregðast við og takmarkaðar upplýsingar sem við getum aflað.

Ríkisvaldið verður þarna að taka á honum stóra sínum og efla samstarf, samráð og eftirlit til muna. Það er krafa hreyfingarinnar enda erum við þau sem vitum best hvernig ástandið er á vinnumarkaðnum á hverju svæði fyrir sig.

Kæru félagar,

Þingið okkar að þessu sinni er undirbúningsþing fyrir komandi kjarasamninga sem eru lausir í haust

Mikilvægur hluti af þeim viðræðum er aðkoma stjórnvalda að ýmsum málum. Þar er efst á blaði að efla eftirlitsstofnanir.

Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og Skatturinn þurfa að hafa fjármuni og mannskap til að sinna sínum verkefnum og leggjast á árarnar með okkur til að bæta vinnumarkaðinn og kjör og aðstæður á honum.

Lög um keðjuábyrgð eru líka nauðsynleg í baráttunni gegn félagslegum undirboðum og ættu að gilda um allan vinnumarkaðinn. Þá þarf að gera miklu betur í aðgerðum gegn mansali sem er versta birtingamyndir misnotkunar á vinnuafli.

Þessi verkefni eru stór og brýn og við skulum halda ábyrgð ríkisins til haga.

En ábyrgð ríkisins liggur á fleiri stöðum. Til dæmis skattbyrði þeirra sem lægstu tekjurnar hafa og við vitum að það er ávísun á fátækt ef illa launað fólk veikist og þarf að bera kostnað af heilbrigðisþjónustu.

Ríkið hefur gerst sífellt grófara í því að láta sjóði sem vinnandi fólk hefur safnað í yfir starfsævina koma í staðinn fyrir öflugt opinbert velferðarkerfi.

Þannig greiða sjúkrasjóðir okkar æ fleiri liði er varðar sjúkrakostnað, skimunargjöld og fleira sem ríkið ætti að greiða.

Þá má ekki gleyma því að ríkið er stærsti atvinnurekandi á landinu og ber sína ábyrgð á því að fólk á lægstu launum nær ekki að framfleyta sér almennilega.

Þó að barnabætur hafi hækkað þá eru skerðingar vaxta- og barnabóta of miklar og sífellt minnkandi hluti ríkisins í að gera fólki kleift að bjarga sér.

Við þetta verður ekki unað öllu lengur og vinnandi fólk gerir þær kröfur á kjörna fulltrúa að þeir vinni raunverulega að bættum hag launafólks.

Að lokum má alls ekki gleyma þeim sem eru utan vinnumarkaðar en við í hreyfingunni berum líka ábyrgð á því að tala máli öryrkja og aldaðra, enda haf þeir flestir verið á vinnumarkaði og félagsmenn okkar. Við vitum það öll að það er eitt stærsta verkefnið framundan að skilja engan eftir í fátækt, þó starfsþrekið sé farið.

Kæru félagar,

Frumskylda stéttarfélaga er að semja um kaup og kjör fyrir félagsmenn sína.

Þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga næsta haust verðum við tilbúin í slaginn en það er mikilvægt að öll félög taki þátt í myndun kröfugerðar.

Það er komið að því að endurreisa taxtakerfið en það hefur látið á sjá svo um munar undangengna samninga. Afleiðingin er sú að fólk fær ekki sanngjarna umbun fyrir margra ára störf og hækkar minna á milli launaflokka en áður.

Þetta eru stóru verkefnin í komandi kjarasamningum og við göngum til þeirra verka.

Það verður líka stórt verkefni að endurskoða samkomulagið um styttingu vinnuvikunnar hjá opinberum starfsmönnum. Það er megn óánægja með þann samning sérstaklega hjá vaktavinnufólki og í raun hafa stórir hópar jafnvel lækkað í launum.

Það var ekki tilgangurinn og verða menn að koma betri böndum á þetta kerfi áður en það verður endanlega samþykkt.

Það verður líka að segjast að ósveiganleiki sveitarfélaga og hvernig þau hafa ekki staðið sig í innleiðingunni er þeim til vansa. Að taka ráðin af fólkinu á vinnustöðunum og skipa öllum í sama mótið var ekki það sem um var rætt við samningaborðið.

Ég segi við sveitarfélögin; hættið að reyna að eyðileggja kerfið með ykkar stífni og þvermóðsku.

Það er líka alveg ljóst að það verður ekki gengið frá samningum á almennum markaði nema að samið verði um framkvæmanlega vinnustyttingu.

Kæru félagar. Þetta er í síðasta skipti sem ég set þing Starfsgreinasambands Íslands sem formaður þess.

Óhjákvæmilega hugsar maður þá aðeins til baka, 1. maí nk. eru 40 ár síðan ég byrjaði að vinna hjá stéttarfélagi hér á Akureyri og það eru 30 ár síðan ég var kosinn formaður Einingar og síðan Einingar-Iðju.

Ef ég man rétt hef ég setið í framkvæmdastjórn Verkamannasambands Íslands og síðan SGS síðan fyrir 1990.

Eftir stofnun SGS var ég varaformaður fyrstu árin en síðan lenti ég í því að þurfa að axla þá ábyrgð sem varaformaður að taka við sem formaður þegar Kristján Gunnarsson sagði af sér.

Það eru líklega 12 ár sem ég hef gengt formannsstarfinu. En það var eitthvað sem ég sóttist ekki eftir. Þetta er búinn að vera spennandi tími oftast skemmtilegur en stundum hundleiðinlegur.

En það sem maður hefur haft að leiðarljósi er að geta talað við alla og reynt að ná fólki saman, reyna að finna lausnir. Það sem hefur hjálpað manni mikið í þessu starfi eru starfsmenn sambandsins sem hafa verið hverju öðru betra og takk fyrir alla hjálpina.

En þið öll sem ég hef unnið með takk fyrir samstarfið og megi þið halda áfram á þeirri braut að berjast fyrir ykkar félagsmenn. Þeir treysta á okkur.

En það er gott að hafa í huga að samstarf felur í sér að hlusta hvert á annað og standa sameinuð í okkar baráttu fyrir bætum kjörum launafólks á Íslandi.

Það fer of mikil orka og tími hjá okkur þessa daganna í að bítast innbyrðis og það er engum til hagsbóta nema andstæðingum verkalýðshreyfingarinnar og óvönduðum atvinnurekendum. 

Munið líka að starf okkar kemur niður á og tekur toll af fjölskyldum okkar með margvíslegum hætti. Gleymum þeim ekki, þau eru lykillinn, standa við bakið á okkur og eiga skilið margfaldar þakkir okkar fyrir allan stuðninginn.

Kæru félagar

Það er alltaf gaman og gagnlegt að hittast á þingum Starfsgreinasambandsins, ræða málin, skemmta okkur saman, en fyrst og fremst að leggja línurnar fyrir næstu ár.

Ég efast ekki um að við vinnum vel saman hérna næstu tvo daga og förum heim með sameiginlegt markmið um að bæta kjör og stöðu félagsmanna, okkur öllum til heilla.

Ég segi áttunda reglulega þing Starfsgreinasambands Íslands sett.                   

  1. 12/17/2024 6:01:56 PM Viðsjárverð þróun í leikskólamálum
  2. 12/10/2024 3:23:50 PM Formenn SGS fordæma aðfarir SVEIT og Virðingar í garð verkaf…
  3. 12/6/2024 1:41:51 PM Varað við nýju "stéttarfélagi" í veitingageiranum
  4. 11/22/2024 2:16:19 PM Desemberuppbót 2024 - nýjar reiknivélar