Mansal á vinnumarkaði
Mansal er ein grófasta birtingamynd mannréttindabrota og nauðsynlegt að stéttarfélög, stjórnvöld og almenningur séu meðvituð um þá vaxandi ógn sem mansal er. Talið er að nærri 21 milljón manns séu þolendur mansals í heiminum, þar af 16,5 milljónir í nauðungarvinnu.
Þrátt fyrir alþjóðlega baráttu gegn mansali hefur vandinn vaxið síðustu ár og mun sennilega halda áfram að vaxa. Þó að aldrei sé hægt að segja að ákveðnir einstaklingar séu líklegri en aðrir til að vera seldir mansali þá eru ákveðnir hópar berskjaldaðri og ákveðnar aðstæður þar sem mansal þrífst öðru fremur. Átök í heiminum, flóttamannastraumur og skortur á mannréttindum auka líkur á mansali. Ef litið er til Íslands þá skiptir öllu máli að vera með virkt eftirlit, opna umræðu og skýra verkferla til að minnka líkur á mansali. Hér á landi eru stéttarfélögin einn mikilvægasti hlekkurinn í baráttunni gegn mansali þar sem starfsfólk þeirra hefur oft besta yfirsýn yfir vinnumarkaðinn og hvar brotalamirnar eru. Eftirfarandi upplýsingum er ætlað að auðvelda starfsfólki stéttarfélaga að þekkja mansal, geta greint það og spyrja réttu spurninganna og ekki síst að upplýsa um hvert á að snúa sér þegar grunsemdir um mansal vakna.
Árið 2016 gaf Starfsgreinasambandið út handbók um mansal á vinnumarkaði, en handbókinni er ætlað að auðvelda starfsfólki stéttarfélaga að þekkja mansal, geta greint það og ekki síst að upplýsa um hvert á að snúa sér þegar grunsemdir um mansal vakna. Í bókinni er m.a. að finna skilgreiningar á mansali sem og upplýsingar um helstu einkenni og vísbendingar um mansal á vinnustöðum eða meðal starfsfólks. Þá eru settar fram gagnlegar spurningar fyrir starfsfólk stéttarfélaganna sem gott er að hafa í huga þegar einstaklingar leita til stéttarfélaganna vegna mansalsmála og jafnframt nokkrar meginreglur varðandi viðbrögð stéttarfélaga þegar upp koma mál þar sem grunur er um mansal.