Fræðslustefna SGS
Eitt af meginhlutverkum Starfsgreinasambandsins er að beita sér fyrir aukinni starfsmenntun, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun m.a. með virku samstarfi við önnur stéttarfélög og sambönd þeirra og þátttöku í opinberri stefnumótun.
Til að auka ánægju og hæfni starfsfólks í atvinnulífinu þarf öfluga fræðslu og gott aðgengi að menntun, bæði innan ákveðinna starfsgreina og almennt. Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnurekenda og starfsfólks að auka hæfni og færni í atvinnulífinu auk þess sem það eru hagsmunir samfélagsins alls að bæta menntunarstig í landinu.
Sameiginlegir starfsmenntasjóðir aðila vinnumarkaðarins hafa lyft grettistaki til aukinnar menntunar og færni og ber að halda áfram á þeirri braut enda vex skilningur og áhugi á fræðslu og menntun með hverju árinu. Þá hefur samspil raunfærnimats og áherslu á styttri námsbrautir aukið möguleika almenns starfsfólks í atvinnulífinu til að afla sér réttinda og hvatt til aukinnar menntunar.
Margar kannanir sem hafa verið gerðar meðal almenns starfsfólks í atvinnulífinu bera vott um mikinn áhuga á styttri námskeiðum og námsleiðum til að auka færni í starfi og möguleika til að þróast innan viðkomandi starfsgreinar.
Í fræðslumálum leggur Starfsgreinasambandið áherslu á að:
- Auka fjölbreytni í námi með áherslu á styttri námsleiðir til að koma til móts við óskir fólks á vinnumarkaði.
- Skapa aðstæður til að fólk geti aflað sér starfsréttinda í áföngum.
Nám og raunfærnimat verði metið til eininga og nýtist til áframhaldandi náms
og/eða starfsréttinda. - Tryggja gæði vinnustaðanáms í góðu samstarfi við atvinnurekendur og fræðsluaðila.
- Starfsfólk fái nám og/eða viðurkenndar námsleiðir metið til launa enda líklegt að
menntun auki færni á vinnumarkaði og þá um leið framleiðni fyrirtækja. - Auka lífsgæði fólks með fjölbreyttu framboði og aðgengi að tómstundanámi enda leiðir slíkt nám oft til frekari menntunar.
Til að ná þessum markmiðum leggur Starfsgreinasambandið til að:
- Efla og þróa áfram starfsmenntasjóði aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, ríkis og sveitarfélaga.
- Starfsgreinasambandið sé virkur þátttakandi í stefnumörkun og mótun náms fyrir atvinnulífið.
- Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins séu leiðandi í stjórnun og stefnumörkun símenntunarmiðstöðva og annarrar fræðslustarfsemi sem tengist þeim sem minnstu menntun hafa á vinnumarkaði.
- Fulltrúar stéttarfélaganna í starfsgreinaráðum hafi að því frumkvæði að aukið verði fjölbreytni og aðgengi að styttri námsleiðum.
- Símenntunarmiðstöðvar verði hvattar til að bjóða upp á nám sem víðast og tryggja aðgengi allra að námi.
- Viðhalda og efla þátttöku vinnumarkaðarins í því þróunarstarfi sem unnið er innan Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.